Langholtsskóli er þátttakandi í Erasmus verkefninu RECEPTION = Role of Childhood Education in Positive Transition/Introduction Outcome for pupils ásamt samstarfsaðilum frá Grikklandi, Króatíu, Írlandi, Noregi og Danmörku. Verkefnið er til þriggja ára, hófst haustið 2016 og lýkur vorið 2019. Markmið með verkefninu er að auðvelda nemendum skólaskilin frá leikskóla yfir í grunnskóla með snemmtækri íhlutun til að koma í veg fyrir brottfall síðar á skólagöngunni.
Hvert land tekur á móti kennurum og þroskaþjálfum í eina viku og heldur námskeið, skipuleggur skólaheimsóknir, fyrirlestra og vinnufundi fyrir þátttakendur um það hvernig staðið er að skólaskilum og fyrstu árum í grunnskóla í hverju landi fyrir sig. Markmiðið er að sem flestir fái tækifæri til að kynnast nýjum aðferðum og nái þannig að smita út í skólasamfélagið þegar heim er komið. Námskeið hafa verið í Ennis á Írlandi, Langholtsskóla á Íslandi, Þessaloniku í Grikklandi, Osnova skólanum í Króatíu og Alberstlund í Danmörku. Vorið 2019 verður síðasta námskeiðið haldið í Luster í Noregi.
Á heimasíðunni eru þau verkefni sem unnin hafa verið undanfarin þrjú ár. Hvert land hefur gert skil á skólakerfi sínu (State of Art), gert vettvangsrannsókn (Case study) og myndband í kjölfarið. Einnig hefur verið gefin út handbók vegna tveggja ráðstefna sem þátttökuþjóðirnar halda, í Zagreb í Króatíu, 1. – 5. október 2018 og í Þessaloníku 1.- 5. apríl 2019.
Aðaláhersla Langholtsskóla er að efla samstarf við leikskólana í hverfinu: Sunnuás, Vinagarð, Brákarborg og Langholt. Í því skyni sóttum við um styrk til Erasmus til að sækja ráðstefnurnar sem gerir okkur kleift að bjóða leikskólunum í hverfinu og aðilum frá skóla og frístundasviði til að vera með. Þannig teljum við að samstarfið eflist enn frekar, við getum lært hvert af öðru og að vinnan með börnunum í hverfinu verði enn betri.
-Hægt er að smella á hlekkina hér að neðan til að sjá yfirlit yfir ferðir og ráðstefnur og hvaða skólar voru heimsóttir.