Skip to content

Lestur og lesskilningur í Langholtsskóla

Hér verður rætt  um niðurstöður nemenda í 2. bekk Langholtsskóla í lesskilningsprófi í apríl 2019, niðurstöður sama hóps í hraðaprófinu lesfimi í maí 2019 og lesskilningsprófinu Orðarúnu í október sama ár.

Á dögunum birtist grein í Morgunblaðinu um niðurstöður lesskimunar í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur. Í greininni kemur m.a. fram að einungis 31% barna í 2. bekk Langholtsskóla gæti lesið sér til gagns vorið 2019.

Okkur í skólanum brá illilega í brún þegar niðurstöðurnar voru birtar í desember sl. þar sem þær voru verulega á skjön við þær væntingar sem við höfum til þessa nemendahóps.

Í framhaldinu skoðuðum við niðurstöður undangenginna ára á sama lesskilningsprófi sem lagt hefur verið fyrir 2. bekk í Reykjavíkurskólunum mörg undanfarin ár. Nemendur sem ná a.m.k. 65% árangri í skimuninni teljast geta lesið sér til gagns. Árangur Langholtsskóla í samanburði við aðra skóla er þessi:

Í framhaldi af þessum slöku niðurstöðum fórum við, á sínum tíma, ítarlega yfir fyrirlögn skimunarinnar og skráningu  en höfum því miður ekki fundið viðhlítandi skýringu.

Einungis er um ágiskanir að ræða, s.s. að nemendur hafi runnið út á tíma í einstökum þáttum prófsins eða hreinlega ekki verið nógu vanir að vinna próf eins og þetta. Það kom okkur t.d. verulega á óvart að enginn þessara 62 nemenda skyldi ná 80% eða betri útkomu.

Lesskimunarprófið var lagt fyrir í aprílmánuði. Í maí 2019 þreyttu sömu nemendur annað lestrarpróf sem Menntamálastofnun (MMS) hefur gefið út.

Um er að ræða Lesfimi hraðapróf sem lagt er fyrir í öllum árgöngum skólans og í flestum skólum landsins. Þótt lesfimiprófið mæli fyrst og fremst hraða gefur það nokkuð glögga mynd af því hvort nemendur hafi náð tökum á lestrartækninni. Niðurstöður lesfimipófsins eru eins og eftirfarandi myndir sýna.

Menntamálastofnun setur viðmið fyrir prófin. Gert er ráð fyrir því að 90% nemenda á Íslandi nái viðmiði 1 eða meira. 50% nemenda nái viðmiði 2 og 25% viðmiði 3. Um 86% nemenda okkar í 2. bekk náðu viðmiði 1. 55% náðu viðmiði 2 og 25% viðmiði 3. Um fjórðungur nemenda í 2. bekk náði því framúrskarandi árangri á lesfimiprófinu.

Í október 2019 tóku sömu nemendur lesskilningspróf sem heitir Orðarún sem lagt er fyrir nemendur í 3.-8. bekk tvisvar sinnum á ári.

Í niðurstöðum Orðarúnar í 3. bekk (sömu nemendur) kemur fram að  12,7% árgangsins þurfi á sérstökum stuðningi að halda. 14,3% þarfnast aukinnar þjálfunar. 72% nemenda náðu að leysa 65% af prófinu (13 eða meira). Þar af náðu 9,4% nemenda í þessum árgangi framúrskarandi árangri (20 af 20).

Þau próf og skimanir sem hér hefur verið fjallað um hafa þann megin tilgang að varpa ljósi á hæfni  nemenda þannig að bregðast megi við stöðu þeirra í lestri og lesskilningi á hverjum tíma.

Þau eru jafnframt hvatning til að ígrundunar og umfjöllunar um lestur og lestrarkennslu nemenda í víðara samhengi með það að markmiði að nemendur okkar nái sem allra bestum árangri í lestri sem og í öðru námi.

Langholtsskóla 9. október 2020.

Hreiðar Sigtryggsson skólastjóri – Sesselja Auður Eyjólfsdóttir aðstoðarskólastjóri

_____________________________________________________________________________________________

Læsi – lesskimun í 2. bekk. Staðlað próf í lesskilningi á vegum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkuborgar.

Lesfimi– Staðlað hraðlestrarpróf frá Menntamálastofnun.

Orðarún, mat á lesskilningi. Menntamálastofnun og Háskólinn á Akureyri