Skólanámskrá Langholtsskóla

Skólanámskráin byggir á aðalnámsskrá grunnskóla og er nánari útfærsla skólans á þeim markmiðum sem hún setur grunnskólum. Hún á að spegla skólastarfið í Langholtsskóla eins og það er, sérkenni skólans og aðstæður. Námskráin er því eins og skólastarfið í Langholtsskóla í sífelldri þróun og tekur í framtíðinni breytingum samkvæmt því. 

Almennan hluta námskrárinnar er að finna í starfsáætlun skólans á heimasíðu. Kennsluáætlanir breytast frá ári til árs og innihalda upplýsingar um það námsefni sem notað er hverju sinni, tímaáætlanir, verkefni og vægi mismunandi þátta námsgreinarinnar í námsmati. Í námskrárhlutanum er svo að finna þau markmið/hæfniviðmið sem við sækjumst eftir að ná í mismunandi greinum og árgöngum. Unnið er að innleiðingu nýrrar Aðalnámskrár sem kom endanlega út árið 2013 í samræmi við breytta menntastefnu. 

 

Skólaárið 2017-2018 - unglingadeild
Í unglingadeild er lögð áhersla á að nemendur beri aukna ábyrgð á námi sínu. Ætlast er til að nemendur sýni sjálfstæði í vinnubrögðum, nýti sér upplýsingar um heimanám, próf og verkefnaskil á http://mentor.is/ og auðvitað að mæta með réttar bækur og gögn í skólann. Námsumhverfi á vef er notað í mörgum námsgreinum og allir nemendur fá netfang hjá Langholtsskóla og aðgang að Google Classroom umhverfi. Áhersla er lögð á rétt allra til að stunda nám sitt í friði án utanaðkomandi truflana.
Við gerð námsáætlana er miðað við hæfniviðmið sem tilgreind eru í Aðalnámskrá grunnskóla. Námsáætlanir eru aðgengilegar á heimasíðu skólans og á mentor.is.Í öllum árgöngum unglingadeildar verður námsmati hagað samkvæmt matsviðmiðum aðalnámskrárinnar og einkunnir gefnar í bókstöfum eða með umsögn.
Fyrir góða ástundun fá nemendur sérstaka viðurkenningu í lok haustannar og svo aftur í lok vorannar. Hægt er að fylgjast með ástundun, heimanámi, námsmati o.fl. frá degi til dags á mentor.is.
Samtími er sameiginlegur tími að loknum lífsleiknitíma kl. 13.50 – 15.20 á fimmtudögum þar sem allir unglingabekkirnir eru lausir á sama tíma. Samtími er nýttur fyrir ýmsar uppákomur, s.s. verkefnakynningar, leiksýningar, fræðslufyrirlestra, ferðir og ýmis verkefni hvers árgangs fyrir sig. Dagskrá samtíma er skráð á heimasíðu skólans og auglýst á auglýsingatöflu í anddyri unglingadeildar. Samtímar eru að jafnaði aðra hverja viku en það getur verið breytilegt. Skyldumæting er í samtíma og bera nemendur ábyrgð á að kynna sér dagskrá hvers tíma og mæta á réttum stað og stund.
Í unglingadeildinni er mikið og gott félagslíf sem flestir taka virkan þátt í. Nemendaráð skólans starfar í nánu samstarfi við Þróttheima. Allir nemendur sem gefa kost á sér til starfa að félagsmálum fá tækifæri til þess. Hefðbundnar uppákomur eru m.a. haustgönguferðin og Rósaballið, Skrekkur, jólaballið, spurningakeppni grunnskólanna, skólahreysti, árshátíðin og lokaballið. Auk þessa eru ýmiss konar skemmtanir og böll yfir skólaárið. Bekkjarkvöld á vegum umsjónarkennara eru haldin einu sinni á ári.

8. bekkur
Skólaárið 2017-2018 eru þrjár bekkjardeildir í 8. bekk og fjöldi nemenda er samtals 56. Umsjónarkennarar eru Emil Gunnarsson í 8. EG, Guðmundur Helgi Helgason í 8. GHH og Sigrún Gestsdóttir í 8. SG.

9. bekkur
Í 9. bekkjum er 51 nemandi í tveimur bekkjardeildum. Umsjónarkennarar eru Dögg Lára Sigurgeirsdóttir í 9. DLS og Lilja Berglind Benónýsdóttir í 9. LB.  

10. bekkur
Í 10. bekkjum eru 39 nemendur í tveimur bekkjardeildum. Umsjónarkennarar eru Hjalti Halldórsson í 10. HH og Sandra Ýr Andrésdóttir í 10. SA.
Námsver er starfrækt í unglingadeild þar sem veitt er sérkennsla og stuðningur í námi. Kennari þar er Guðrún Ása Jóhannsdóttir. 
Undir lok skólaársins vinna nemendur 10. bekkja að sérstökum vorverkefnum í stað hefðbundins bóknáms. Nemendur koma sjálfir með tillögur að verkefnum sem þeir vinna í litlum hópum undir leiðsögn kennara. Markmið þessara verkefna er að auka sjálfstæði og veita nemendum tækifæri til að njóta og skapa í námi undir leiðsögn kennara.
Nemendur 10. bekkja fá að kynnast þeim námsleiðum sem eru í boði eftir grunnskólann. Framhaldsskólar halda kynningar og opin hús á vorönn þar sem kynnt er það nám sem í boði er. Námsráðgjafi skólans sér um að upplýsa nemendur og foreldra um kynningar á framhaldsnámi. Námsráðgjafi tekur einstaklingsviðtöl við alla tíundu bekkinga þar sem farið er yfir nám og stöðu og hugað að framtíðinni. Námsráðgjafinn heldur auk þess stutt námskeið í námstækni og er alltaf tilbúinn að leiðbeina þeim sem á þurfa að halda.

Ráðgert er að fara í þriggja daga uppskeruferð samkvæmt venju undir lok 10. bekkjar. Ferðin er undirbúin í samvinnu kennara og foreldra.