7. bekkur

7. bekkur

Nemendur í  7. bekk í ár eru 56 talsins í þremur bekkjum. Umsjónarkennarar eru Gunnar Jarl Jónsson, Harpa Stefánsdóttir og Ingvi Sveinsson. Ingvi er búinn að kenna árganginum síðustu tvö ár en Harpa og Gunnar í eitt ár.  

Kennslustofur bekkjanna eru nú í C álmu: C 15 (7.IS), C 14 (7.HS) og C 13 (7.GJJ).

Kennsluhættir í 7. bekk verða með svipuðu sniði og tíðkast hefur í skólanum undanfarin ár. Við reynum að hafa námið sem fjölbreytilegast, notum fjölbreyttar kennsluaðferðir og tökum tillit til þess að færni nemenda liggur á ólíkum sviðum. Samvinna nemenda, skapandi starf og sjálfstæð vinnubrögð er eitthvað sem við stefnum að. Markmiðið er svo auðvitað að hver einstaklingur fái kennslu og verkefni við hæfi. Nemendur vinna ýmist sjálfstætt og í minni og stærri hópum.

Við leggjum áherslu á góðan bekkjaranda og verða haldnir vikulegir bekkjarfundir með nemendum þar sem unnið er með ýmis málefni. Einnig leggjum við áherslu á góð félagsleg samskipti innan árgangsins, lítum á hann sem eina heild. Hann blandast mikið saman í listasmiðjum, íþróttum niður í TBR og í hringekjum. Við lítum við á þennan árgang sem eina heild og leggjum mikla áherslu á góð félagsleg samskipti innan árgangsins.

Nemendur taka áfram aukna ábyrgð á sínu námi og þurfa að passa vel upp á allt heimanám. Lögð er áhersla á heimalestur en nemendur fá einnig verkefni heim í flestum öðrum greinum. Í ár ætlum við líka að nota Google Classroom umhverfið.  

Námsmat verður fjölbreytt að vanda. Það verða kannanir reglulega, stór og lítil verkefni, munnlegt próf, sjálfsmat, annarpróf o.fl. 

Kennarar kenna sínum bekk samfélagsfræði og náttúrufræði en síðan en skipta á milli sín stærðfræði (Ingvi), íslensku (Harpa) og ensku og dönsku (Gunnar). Listasmiðjurnar eru smíði, heimilisfræði, myndmennt, upplýsingatækni (m.a. Ipad) og textílmennt og eru kenndar í lotum allt skólaárið. Nemendur fara svo eina önn í sund en eru í íþróttum allt árið. Laugardalurinn verður áfram helsti vettvangur útikennslunnar sem við tökum við og við, en einnig stefnum við að vera dugleg að fara í vettvangsferðir langar og stuttar (1-2 í mánuði).  

Í ár verðum við áfram með hringekju á öllu miðstiginu þar sem árgangar blandast saman. Eftir jól veður boðið upp á valgreinar líkt og gert var síðasta ár. Allt miðstigið sameinast svo á sal aðra hverja viku þar sem bekkir skipta mér sér umsjón á dagskrá.  

Áfram er lögð mikil áhersla á gott foreldrasamstarf og er Mentor kerfið áfram nýtt sem samskiptaleið til að auka upplýsingaflæði milli skóla og heimilis.  Heimasíða skólans er einnig  í stöðugri þróun og hægt er nálgast helstu upplýsingar þar.

Með von um gott ár,  Gunnar, Harpa og Ingvi.