4. bekkur

4. bekkur 2016-2017

Í 4. bekk eru fjórar bekkjardeildir með 83 nemendum. Umsjónarkennarar eru Elínborg Ásdís Árnadóttir, Helga Júlíusdóttir, Kristín Kristmundsdóttir og Þóra Þorsteinsdóttir.

Kennslustofur 4. bekkjar eru á 1. hæð í A álmu skólans.

4. EÁ.   -  22 nemendur, heimastofa A-15

4. HJ. – 20 nemendur, heimastofa A-14

4. KK.- 22 nemendur, heimastofa A-13

4. ÞÞ. – 19 nemendur, heimastofa A-12

Kennsluhættir í 4. bekk verða með svipuðu sniði og undanfarin ár.

Lögð er áhersla á:

  • fjölbreytt nám og fjölbreyttar kennsluaðferðir, þar sem hver nemandi fær kennslu og námsefni við hæfi og þar sem tekið er tillit til þess að færni nemenda liggur á ólíkum sviðum.
  • samvinnu nemenda, skapandi starf og sjálfstæð vinnubrögð. Nemendur vinna ýmist í stórum eða litlum hópum.
  •  góðan bekkjaranda og góð félagsleg samskipti innan árgangsins. Haldnir verða bekkjarfundir vikulega með nemendum þar sem unnið er með ýmis gildi og málefni. 
  • Laugardalurinn verður helsti vettvangur skólans til útikennslu, en einnig er farið í vettvangsferðir langar eða stuttar.
  • annan hvern föstudag er 4. bekkur í samtíma ásamt 2. bekk í sal skólans og er þá sungið saman eða brugðið á leik. Hver bekkur stýrir svo einni skemmtun fyrir skólafélaga sína og hefur það gefist mjög vel.

Nám heima felst fyrst og fremst í daglegum lestri ásamt svolítilli stafsetningu þar sem nemandinn skrifar upp nokkrar málsgreinar úr lesnum texta.

Bekkjarkvöld með þátttöku umsjónakennara er einu sinni á skólaárinu en foreldrar geta skipulagt aðra viðburði fyrir bekkina í húsnæði skólans að viðhöfðu samráði við umsjónamann skólans.

Þemaverkefni eru unnin í lotum. Á haustönn vinnum við með smádýr og í lok vorannar vinnum við með fugla. Nemendur skólans vinna saman að þemaverkefni í  febrúar.

Námsmat verður með sama sniði og undanfarin ár. Nemendur eru metnir jafnt og þétt yfir skólaárið með ýmsum verkefnum og æfingum. Einnig þreyta nemendur jóla- og vorpróf í íslensku og stærðfræði.

Ýmsar hefðir eru við skólann. Norræna skólahlaupið skipar fastan sess hjá okkur. En svo er ætíð sameiginlegur íþrótta- og leikjadagur sem haldinn er að hausti og vori. Yngsta stig fer saman í gönguferðir, eina á hvorri önn. Við höldum 1. desember ætíð hátíðlegan með fræðslu og veislukaffi. Farið verður í friðargöngu í desember og svo höldum við okkar árlega jólaball. Haldið er upp á öskudaginn með búningum og tilheyrandi sprelli. Fyrir páskafrí er svo haldin árshátíð á yngsta stigi.

Skólaárinu er skipt upp í tvær annir, haust- og vorönn. Kennslu í listasmiðjum í 4.bekk er skipt niður á 4 lotur og 2 aukalotur á haustönn vegna mikils fjölda nemenda í árgangi.  Þetta er gert til að allir nemendur fái jafn margar kennslustundir í sérgreinum.

Sérgreinakennarar eru: Jóhanna Dagbjört (heimilisfræði), Alfa Rós (myndmennt), Sveinn (smíði), Ólöf Ágústína (textílmennt) og Kristinn Ingi (tónmennt).

Íþróttir eru tvisvar í viku allt árið og eru kennarar Atli, Emil og Oddný. Sundið er kennt bekkjarheildum og fara tveir bekkir í sund á haustönn, svo hinir tveir á vorönn og kennarar eru Zoltán og Gabriela.

Einnig fara nemendur einu sinni í viku í badminton í boði TBR.

Áfram er lögð mikil áhersla á gott foreldrasamstarf og er Mentor kerfið nýtt sem samskiptaleið til að auka upplýsingaflæði milli skóla og heimilis.

Heimasíða skólans er einnig alltaf í stöðugri þróun og hægt er nálgast helstu upplýsingar þar.